Fullkominn misskilningur eða ósvífnar blekkingar?

 

Formaður fjárlaganefndar hefur nú komið sér í viðtöl víða til að skammast yfir því að stjórnarandstaðan skuli lýsa yfir áhyggjum vegna frétta um hugsanlega sölu á bönkunum. Jafnframt þykir honum fráleitt að funda um málið í efnahags- og viðskiptanefnd þar sem sala á hlut ríkisins í bönkunum heyri undir fjárlaganefnd. Nefndarformaðurinn segir fréttirnar um hugsanlega bankasölu alls ekki vera nýjar vegna þess að áform stjórnvalda um að selja hlut ríkisins í bönkunum hafi legið fyrir lengi.

Raunin er hins vegar sú að fréttirnar að undanförnu hafa ekki snúist um sölu á hlut ríkisins í bönkunum. Um það hefur enginn verið að tala nema formaður fjárlaganefndar. Fréttirnar snérust um að verið væri að skoða sölu á hlut vogunarsjóðanna í tveimur bönkum sem lið í nauðasamningum sem myndu takmarka mjög möguleika stjórnvalda á að koma til móts við skuldsett heimili. Ein af þeim útfærslum sem viðraðar hafa verið í þessu sambandi var sú að ríkið eða lífeyrissjóðir eignuðust hlut vogunarsjóðanna í bönkunum en fengju í staðinn hinn skuldsetta gjaldeyrisforða þjóðarinnar.

Það er vissulega rétt að það er langt síðan stjórnvöld lýstu áhuga sínum á að selja hlut ríkisins í bönkunum og notuðu það meira að segja sem forsendu aukinna útgjalda í fjárlögum. Við bentum á að þetta væri óraunhæft enda fáir kaupendur að bönkum þessa dagana og auk þess nauðsynlegt að taka á stöðu heimilanna áður en farið verður út í slíkt. Nú, nokkrum árum seinna, er ríkið auðvitað ekki enn búið að selja hlut sinn í bönkunum og það hefur enginn verið að tala um það nema formaður fjárlaganefndar. Þvert á móti umræðan hefur frekar verið um kaup innlendra aðila á bönkunum og útstreymi gjaldeyris.

Annað hvort er formaður fjárlaganefndar engan veginn með á nótunum í umræðu um áhrif vogunarsjóðanna og hefur algjörlega misskilið fréttir undanfarinna daga eða hann er viljandi að reyna að villa um fyrir fólki. Það er álitamál hvort er verra.