Nauðsynleg endurskoðun náttúruverndarlaga

Á næstu dögum mun frumvarp verða lagt fyrir Alþingi um að fella úr gildi náttúruverndarlög 60/2013, sem áttu að taka gildi 1. apríl 2014. Alþingi mun síðan taka afstöðu til frumvarpsins og verði það samþykkt verður engin breyting á, núgildandi náttúruverndarlög nr. 44/1999 halda áfram gildi sínu, sömu lög og gilda í dag.

Í framhaldi mun ráðuneytið hefja vinnu við endurskoðun á náttúruverndalögunum og við þá vinnu styðjast við frumvarpið frá því í vor. Jafnframt er mikilvægt að farið verði vel yfir þær fjöldamörgu ábendingar og athugasemdir, sem bárust bæði ráðuneytinu og þingnefndinni sl. vetur, og reynt að leita leiða til skapa betri sátt um náttúruverndarmálin. Það skiptir miklu máli.

Til þess að vinna að því hyggst ég skipa vinnuhóp hið fyrsta sem starfi með ráðuneytinu og hafi jafnframt víðtækt samráð við hagsmunaðila.

Margir hnútar voru á málinu sem þurfti að greiða úr – á endanum fannst lausn sem enginn var sáttur við í þinginu í sl. vor. Það sem fólst í lausninni var að gildistökunni var frestað um nokkra mánuði, sem gefur núna ráðrúm til að gera þær breytingar sem þarf að gera. Stefnt er að því að leggja fram nýtt og endurbætt frumvarp til náttúruverndarlaga á Alþingi vorið 2015. Þetta er yfirgripsmikið mál og því mikilvægt að gefa vinnunni þann tíma.

Um fjöldamörg atriði var ágreiningur, auk þess sem mörg atriðið eru ekki nægilega skýr og þarf að útfæra betur. Um það vitnar best hin mikla og gangnrýna umræða sem varð um málið sl. vetur.

Þar er af mörgu að taka. Frumvarpið lagði of mikla áherslu á boð og bönn, sem helsta stjórntæki náttúruverndarmála. Of lítið var lagt uppúr fræðslu, samráði við almenning og félagasamtök og aðrar slíkar leiðir. Ákvæði um hverrskonar umferð eru mjög óskýr og orsökuðu miklar deilur við útivistarfólk. Endanleg framsetning á kaflanum um utanvegaakstur er afar óskýr og ekki endilega til framfara. Mikill ágreiningur varð við ýmsa aðila um reglur um innflutning framandi lífvera sem hæglega hefði átt að vera hægt að leysa. Ágreiningur var um form á starfi við sveitarstjórnarstigið og hlutverk þess í náttúruverndarmálum, m.a. skipulagsvald sveitarfélaganna, hlutverk náttúrustofa og náttúruverndarnefnda. Skýra þarf betur hlutverk og verkaskiptingu opinberra stofnanna við framkvæmd laganna svo og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Kostnaður við innleiðingu laganna var mjög hár og hugsanlega vanáætlaður á opinberu stofnanirnar miðað við þær væntingar sem voru dregnar fram.

Þetta eru allt atriði sem mikilvægt er að vinna betur. Til þess vil ég skipa vinnuhóp hið allra fyrsta sem fær það verkefni að endurskoða lögin, fara yfir allar ábendingar og athugasemdir, hafa samráð við hagsmunaðila og þannig, vonandi, endurbæta lagaramma náttúruverndar þannig að nýtt frumvarp geti komið til kasta Alþingis á vorþingi 2015.

Til þessa hluta má ekki kasta höndunum og vinna að í pólitísku offorsi eins og reyndin varð því miður í lokameðförum fyrrverandi ríkisstjórnar daga og nætur fyrir þinglok í vor.

Ábyrgar veiðar

Aflahlutdeildakerfið, eða hið svo kallaða kvótakerfi, hefur löngum verið þrætuepli manna í millum. Á fyrstu áratugum kerfisins deildu menn einkum um, hvort það ætti rétt á sér, eða hvort það skyldi lagt af. Undanfarin ár hefur sú jákvæða þróun orðið að umræðan hefur færst úr því fari í meiri samhljóm um að veiðistýring, sem byggist á aflahlutdeildarkerfi, hafi þrátt fyrir allt skilað góðum árangri. Því til staðfestingar má nefna frumvörp um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða, sem lögð hafa verið fram á Alþingi á undanförnum árum, en í þeim er gengið út frá að veiðum verði stýrt með aflahlutdeildum. Einnig má nefna niðurstöðu Sáttanefndarinnar svo kölluðu frá árinu 2010 þar sem breiður hópur frá hagsmunaaðilum og stjórnmálaflokkum sammæltist um það að veiðum skyldi stýrt með aflahlutdeildakerfinu. Stýring með þessu móti er hagkvæm. Um 11% af landsframleiðslunni eru fiskveiðar og -vinnsla. Kerfið stuðlar að sjálfbærri nýtingu á fiskistofnum og flestir stofnar við Íslandsstrendur eru í vexti. Á alþjóðavettvangi er Ísland viðurkennt fyrir ábyrga fiskveiðistjórnun og árangurinn af henni jafnvel talinn öfundsverður.
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að fiskveiðistjórnunarkerfið verði yfirfarið og að grundvöllur fiskveiðistjórnunar verði áfram aflahlutdeildakerfið. Í lögum um stjórn fiskveiða segir að ef heildarafli sé takmarkaður skuli úthluta aflahlutdeild til einstakra skipa. Við setningu aflahlutdeildar skal miða við samfellda veiðireynslu undanfarinna þriggja ára.

Í mislangan tíma hefur veiðum á nokkrum fisktegundum verið stýrt með því að ákvarða hámarksheildarafla og leyfisbinda veiðarnar. Verndarsjónarmið ráða þar för og komið hefur verið í veg fyrir ofveiði. Þessar tegundir hefði með réttu átt að hlutdeildasetja um leið og samfelld veiðireynsla lá fyrir.

Breytingar verða gerðar á reglugerð um leyfilegan heildarafla á fiskveiðiárinu sem gengur í garð 1. september. Breytingin, sem birt verður í dag, felur í sér þá ákvörðun mína að setja, í fyrsta skipti, leyfilegan heildarafla fyrir blálöngu, litla karfa og gullax. Í þessu felst að í framhaldinu verður aflahlutdeildum, í þessum tegundum, úthlutað til einstakra skipa. Leyfilegur heildarafli tegundanna ákvarðast af ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Framangreind rök eiga við um einn stofn til viðbótar; makríl. Ég mun bráðlega setja af stað vinnu þar sem farið verður yfir hvernig réttast verði staðið að því að setja hann í kvóta.

 

Bjarnarflag

Bjarnarflagsvirkun er í nýtingarflokki rammaáætlunar og hefur Landsvirkun nýtingarrétt á svæðinu. Umhverfismat virkjunarinnar er hins vegar nærri tíu ára gamalt og staðreyndin sú að á þeim tíma hefur orðið til mikil ný reynsla og þekking á umhverfisáhrifum við byggingu jarðvarmavirkjana og forsendur því breyst. Ég tel afar mikilvægt að Landsvirkjun vinni nýtt umhverfismat fyrir Bjarnarflagsvirkun við Mývatn.

Bjarnaflagsvirkjun er á afar viðkvæmu svæði og hafa komið fram vísbendingar um að virkjunin geti hugsanlega haft áhrif á hið viðkvæma lífríki Mývatns. Jafnframt þarf að gæta betur að áhrifum virkjunarinnar á hagsmuni heimamanna svo og ferðaþjónustunnar sem byggir á sérstæðri náttúru svæðisins. Má meðal annars nefna losun affallsvatns, áhrifa niðurdælingar á vatnsstrauma neðanjarðar og brennisteinsmengun.

Samfélagið í Mývatnssveit byggir að mestu á ferðaþjónustu og landbúnaði. Lífríki Mývatns er einstætt á heimsvísu, svæðið er friðlýst og á skrá yfir alþjóðlega mikilvæg votlendissvæði (Ramsar). Ég hvet Landsvirkjun til að láta vinna nýtt umhverfismat fyrir Bjarnarflagsvirkjun þar sem tekið verði fyllsta tillit til allra fyrirliggjandi upplýsinga og nýjustu þekkingu beitt þannig að lífríki og sérstæðri náttúru Mývatns verði ekki ógnað.

Skólp og fráveitumál

Þær eru ógeðfelldar myndirnar sem birtast dag eftir dag inni á heimilum landsmanna þessa dagana. Skólp í sinni grófustu mynd, veitt óhreinsuðu út í sjó eða ár. Í hundruð ára hefur þessi venja viðgengist víða um heim, en í dag árið 2013 eigum við ekki að þurfa að horfa upp á slíkan sóðaskap og mengun.

Um miðjan júlí sl. fór ég af stað með vinnu í ráðuneytinu til að fara yfir þessi mál með það markmið að fá yfirlit yfirstöðuna bæði fljótt og vel. Í framhaldinu var skipaður starfshópur sem hefur það hlutverk að fara yfir skólpmál í þéttbýli. Fyrsti fundur nefndarinnar er í næstu viku. Kalla þarf eftir upplýsingum frá sveitarfélögum til að fá yfirlit yfir stöðuna. Upplýsingar um fráveitur eru af skornum skammti og þarf að laga það og bæta úr skráningu. Einnig þarf að setja viðmiðunargildi um efnainnihald skólps sem losað er frá iðnaðarstarfsemi og skerpa á ábyrgð leyfishafa svo eitthvað sé nefnt.

Skólp- og fráveitumálin eru grundvallar umhverfismál sem ekki hefur verið sinnt nógu vel í tíð fyrri ríkisstjórnar. Það geta allir verið sammála um að þessi mál þurfa einfaldlega að vera í lagi. Við kynnum landið okkar sem hreint og fagurt og byggjum á upplifun sem tengist hreinleika og sérkennum landsins. Við höfum öfluga og metnaðarfulla matvælaframleiðslu í hæsta gæðaflokki sem er þekkt fyrir gæði og öryggi. Íslensk framleiðsla hefur mjög sterka ímynd. Ferðaþjónustan er að verða ein af stærstu atvinnugreinum okkar og er upplifun ferðamannsins lykilinn að velgengni greinarinnar. Fjöldi ferðamanna sem sækir landið er mjög misjafn á milli sveitarfélaga og á samkeppnin um ferðamanninn eftir að harðna í framtíðinni. Lykilatriði er að hafa ímyndina sem við viljum byggja upp í lagi.

Óhreinsað skólp er ekki aðeins sjónræn mengun, heldur einnig heilbrigðismál sem taka verður alvarlega. Það hefur óhagstæð áhrif á vatnið sem það rennur í og inniheldur einnig mikið magn af óæskilegum örverum.

Framundan er mikið verk hjá sveitarfélögum sem þurfa að ráðast í misdýrar framkvæmdir. Fyrir nokkrum árum veitti ríkið sveitarfélögum styrk til umbóta á fráveitukerfum sem var í formi endurgreiðslu að hluta. Fyrri ríkisstjórn dró lappirnar og gerði ekkert til að tryggja framgang fráveitumála. Engin áform voru uppi um slíkt er ég spurði ítrekað um stöðu mála á liðnu kjörtímabili. Mikilvægum málum var oft ýtt til hliðar og ef til vill vantaði betri sýn á jafn mikilvæg mál sem skólp- og fráveitumál eru. Ég mun leggja mikla áherslu á að finna skynsamlegar lausnir og hraða málum eins og efni standa til.

Staðfesting á breytingum á stjórnunar og verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs

Stjórn þjóðgarðsins hefur að undanförnu unnið að breytingum á stjórnunar- og verndaráætlun þjóðgarðsins sem var staðfest árið 2011 og hefur stjórnin sent breytingartillögurnar til staðfestingar, á grundvelli laga nr. 60/2007 um Vatnajökulsþjóðgarð.  Ný stjórnunar og verndaráætlun hefur verið staðfest með tilmælum til stjórnar þjóðgarðsins.

Í megin dráttum snúa breytingarnar að nýjum svæðum með nýjum ákvæðum og ýmsar breytingar á fyrirkomulagi samgangna og veiða á ákveðnum svæðum innan þjóðgarðsins. Stjórn þjóðgarðsins setti tillögur að breytingunum í umsagnarferli og bárust athugasemdir frá sautján aðilum og fjölluðu þær einkum um umferð, samgöngur og veiðar í þjóðgarðinum.

Mikilvægt er að ná sem víðtækastri sátt í samfélaginu varðandi framkvæmd meginmarkmiða Vatnajökulsþjóðgarðs um náttúruvernd, útivist og byggðaþróun. Við stefnumörkun, samræmingu sjónarmiða og ákvarðanatöku um vernd og nýtingu hverskonar gæða innan þjóðgarðsins er stjórnunar- og verndaráætlunin helsta stjórntækið.  Enn eru uppi álitamál varðandi ákveðna þætti í áætluninni, sem fyrst og fremst varða einn þátt í þessari umfangsmiklu vinnu, þ.e. málefni Vonarskarðs. Telur ráðuneytið mikilvægt að unnið verði áfram að því að leita leiða til að skapa betri sátt um þetta svæði.

Rétt er að halda því til haga að lög um Vatnajökulsþjóðgarð takmarka vald mitt sem ráðherra til að breyta tillögum stjórnar þjóðgarðsins að verndaráætlun.  Líkt og áður hefur verið gert við afgreiðslu á stjórnunar og verndaráætlun þjóðgarðsins þá vil ég beina tilmælum til stjórnar þjóðgarðsins um frekari skoðun á ákveðnum atriðum, samtímis því að ég staðfesti áætlunina. Mikilvægt er að leita frekari sátta um málefni útivistar, náttúruverndar í Vonarskarði og tryggja vernd til framtíðar, þar sem fram hafa komið tillögur að breytingum sem kalla á umræðu og ítarlegri yfirferð.

Ákveðnir hlutar Vonarskarðssvæðisins eru viðkvæmari en aðrir, ekki síst jarðhitasvæðin og gróðurlendin. Í stjórnar og verndaráætluninni eru þau ákvæði að göngufólki er heimil för alltaf, hestafólki heimil för skv. leyfi þjóðgarðsvarðar, ferðafólki á reiðhjólum er ekki leyfð för og ferðafólki á vélknúnum ökutækjum heimil för að vetrarlagi og á frosinni jörð. Vetrarakstur er þó ávallt óheimill á og við jarðhitasvæði í Snapadal. Mikilvægt er að samræmis sé gætt við skipulagningu þessara mismunandi þátta útivistar almennings og náttúruverndar á svæðinu.

Gert er ráð fyrir að opnað verði aðgengi að Vonarskarði fyrir hestaumferð. Það er jákvætt, en að sama skapi mikilvægt að sú umferð valdi ekki ágangi á viðkvæman gróður og háhitasvæði. Því er mikilvægt að þessu ákvæði verði fylgt eftir með greinagóðum leiðbeiningum um það hvar sú umferð geti farið um svæðið, án þess að valda spjöllum á viðkvæmum gróðri og hverasvæðum.

Jafnframt eru skiptar skoðanir um vélknúna umferð um Vonarskarð. Uppi eru þau sjónarmið að leyfa enga slíka umferð og svo þau sjónarmið að takmarkaða slíka umferð skuli leyfa um markaða leið, ekki síst hvort hana mætti leyfa að haustlagi þegar umferð göngufólks er lokið með ákvörðun um dagsetningu eða viðmiðunartíma að hausti.

Einnig hafa verið sett fram sjónarmið um að nauðsynlegt sé að skoða betur hvort einstakir hlutar Vonarskarðs, ekki síst hverasvæðin og gróðurlendin, skuli falla í annan og strangari verndarflokk til að styrkja frekar stjórnun og samræmingu útivistar almennings, aðgengi og náttúruverndar á svæðinu.

Það eru vinsamleg tilmæli mín til stjórnar þjóðgarðsins að vinna að skoðun á þessum atriðum í Vonarskarði, með það að markmiði að tryggja að sem best sé haldið utan um samræmingu hagsmuna útivistar og náttúruverndar.

Veiðistjórn í úthafsrækju

Í dag er síðasti dagur úthafsrækjuveiða  á þessu fiskveiðiári, líkt og fram kom  á vef atvinnuvegaráðuneytisins í lok apríl s.l. Þetta kemur sér vitaskuld illa fyrir þá aðila sem gera út á úthafsrækju. Það er þó svo að úthafsrækjuafli er nú kominn 2500 tonn umfram veiðiráðgjöf og því er nauðsynlegt að bregðast við.

Veiðar á úthafsrækju voru gefnar frjálsar frá og með upphafi fiskveiðiárs 2010/11 en höfðu áður stýrst af aflahlutdeildarkerfinu. Rök  þáverandi ráðherra  með þeirri ákvörðun voru þau að aflamark hafði verið illa nýtt til veiða og taldi hann því eðlilegt að  gefa veiðarnar frjálsar með það að markmiði að hvetja til betri nýtingar á úthafsrækjustofninum þannig að sem mestum verðmætum yrði náð.  Nú þarf að fara yfir hvaða áhrif þetta hefur haft. Aflahlutdeildakerfið hefur marga kosti og aðra galla, einn augljós kostur er sá að útgerðum er gert kleift að haga veiðum og vinnslu eftir hentugleika og markaðsskilyrðum.  Það er ljóst að frjálsar eða ólympískar veiðar bjóða illa upp á þennan möguleika og verða seint taldar hagkvæmasti kosturinn.

Samkvæmt aflatölum Fiskistofu hafði nokkur aukning verið í úthafsrækjuafla árið áður en veiðarnar voru gefnar frjálsar og hefur aflinn aukist jafnt og þétt með frjálsu veiðunum. Á síðasta fiskveiðiári var  afli um fjórðung umfram veiðiráðgjöf þess árs. Í ár bregður svo við að Hafrannsóknarstofnun telur stofninn vera á niðurleið og var því ráðgjöf nokkuð lægri en hún hefur verið undanfarin ár (sjá hér). Í umræðunni hafa verið nefndar ýmsar orsakir eins og of mikill veiðiþungi, afrán annarra tegunda og sumir sem veiðarnar stunda vilja meina að rannsóknirnar endurspegli ekki raunverulegt ástand stofnsins.

Nú þarf að meta stöðuna eins og áður sagði og fara yfir framtíðarskipulag veiðanna. Mér þykir ljóst að veiðarnar þurfi á næsta fiskveiðiári að lúta stýringu á ný. Það er engra hagur að þurfa að stöðva veiðar í miðri vertíð og hafa þannig neikvæð áhrif á  atvinnu og tiltekna markaði. Áður en að ákvörðun um framtíðarskipulag verður tekin ætla ég og mitt ráðuneyti að fara yfir þá þætti sem ég hér hef reifað og aðra sem kunna að koma upp, ræða við hagaðila og greina og leitast við að fá niðurstöðu í þau lagalegu úrlausnarefni sem við stöndum frammi fyrir. Þau eru helst  hvernig réttur þeirra sem höfðu yfir hlutdeild í úthafsrækju að ráða þegar að veiðarnar voru gefnar frjálsar sé og hver réttur þeirra sem veiðarnar hafa stundað undir frjálsa fyrirkomulaginu er. Þessi vinna er hafin og lýkur henni vonandi sem fyrst þannig að framtíðarfyrirkomulag verði öllum ljóst.

„Pissað í skóinn “

Háar umræður eru um veiðigjöld þessa dagana enda um mikið hagsmunamál að ræða. Í því tilliti eru nokkrir staðreyndir sem ég vil koma á framfæri og er það einlæg von mín að þeir skýri það ferli sem nú er í gangi og tilurð þess frumvarps sem liggur fyrir Alþingi.

  • Veiðigjöld er ekki verið að afnema. Sérstakt veiðigjald hefði aftur á móti ekki verið lagt á  fyrir komandi fiskveiðiár vegna laga sem samþykkt voru í síðustu ríkisstjórn sem ekki eru framkvæmanleg. Almenna veiðigjaldið eitt og sér, sem er hinn hluti veiðigjaldanna og er framkvæmanlegur, hefði leitt til lægri gjaldtöku en sú sem nú er til umfjöllunar.  Það er ekki mitt mat eða huglægt að lögin séu ekki framkvæmanleg. Það er viðurkennd staðreynd að gjaldið væri ekki hægt að leggja á. Þessi staðreynd ekki síst gerir það að verkum að við urðum að koma fram með frumvarp um veiðigjöld á sumarþingi. Skortur á gögnum sem styðjast átti við auk heimildar til miðla þeim á milli Ríkisskattstjóra, Hagstofu og Veiðigjaldsnefndar eru helstu orsakaþættir hér.
  • Nái umræða um breytingu á lögum um veiðigjöld ekki að fara sinn veg í gegnum þingið og til samþykktar er ekki hægt að leggja á sérstakt veiðigjald fyrir næsta fiskveiðiár. Mikilvægt er að málið fái eðlilega meðferð í þinginu og verði unnið á sem faglegastan máta en ljóst er að tíminn til athafna að þessu sinni er skammur. Atvinnuveganefnd þingsins fjallar nú um málið og fer yfir tillögur frumvarpsins, sem byggðar eru á áætlunum veiðigjaldsnefndar.
  • Álagningin sem nú er mælt fyrir er til eins árs. Það er vilji minn að vinna til framtíðar á grundvelli samráðs. Það tekur tíma að afla þeirra gagna og gera þær greiningar sem þörf er á til þess að finna það gjald sem best endurspeglar eðlilega gjaldtöku af afrakstri auðlindarinnar, en stuðlar um leið að hvata til fjárfestinga og umhverfis sem hvetur til nýsköpunar og þróunar í okkar mikilvægustu atvinnugreinum.

Hérna langar mig að staldra við. Eigi afrakstur auðlindar að skila sér til þjóðarinnar allrar er mikilvægt að stjórnvöld hafi það að markmiði að skapa atvinnuvegum vænlegt starfsumhverfi.  Þar þurfum við að horfa til margra þátta. Ekki síst að það er engra hagur að fá vænar tekjur af einni atvinnugrein í afmarkaðan tíma leiði það til þess að rekstrarskilyrði greinarinnar verði óbærileg og óhagræði valdi því að greinin verði ekki starfhæf á hagkvæman máta til framtíðar. Þetta á við um veiðigjöld. Gert var ráð fyrir mjög óhóflegri gjaldtöku af sjávarútvegnum næstu árin sem að allt bendir til að vegið hefði mjög að rekstrarhæfni greinarinnar.  Kæmi til þess, myndum við tapa þessum mikilvæga tekjustofni. Mig langar að biðja ykkur að staldra við og íhuga þetta. Oft er talað um að pissa í skóinn sinn – Viljum við ofurálagningu í skamman tíma og enga eða mun minni til framtíðar? Eða viljum við hugsa til lengri tíma, líkt og áhersla er lögð á í stjórnarsáttmálanum, hóflegri gjaldtöku sem stuðlar að tekjum af afrakstri auðlindarinnar til lengri tíma?

Munum að ekki er verið að leggja af veiðigjöld, nú erum við að ræða einskiptis aðgerð, sem þarf að lögfesta, til þess að hægt sé að innheimta viðbót við almenna veiðigjaldið. Til lengri tíma og þeirrar vinnu sem okkar bíður í framhaldinu þarf gjaldtakan að grundvallast á sanngjörnum hluta af afrakstri auðlindarinnar, sameign þjóðarinnar, án þess þó að vega á neikvæðan hátt að rekstri sjávarútvegsfyrirtækja.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Undanfarna daga hefur eitt og annað verið oftúlkað af blaðamönnum og álitsgjöfum gagnvart umhverfismálum.

Umhverfismálin eru stór hluti af atvinnulífinu og það væri án efa hægt að auka samlegðaráhrif á milli umhverfisráðuneytisins og annara ráðuneyta. Margir málaflokkar hafa færst yfir í umhverfisráðuneytið á síðastliðnum árum sem í einhverjum tilvikum hefur orðið til þess að regluverkið er orðið flóknara en það þarf að vera.

Það hlýtur að vera markmið og metnaður okkar allra að vilja stefna í sömu átt. Að náttúruvernd og náttúrunýting fari saman og umhverfismálin verði svo greypt inn í vitund okkar að dagleg störf og athafnir taki mið af því. Menn ættu alltaf að hafa verndarsjónarmiðin að leiðarljósi í hverri atvinnugrein þegar taka á ákvörðun um nýtingu.

Það er alveg klárt að það verður ekki farið í neinar breytingar og tilfærslur á málaflokkum nema fyrir liggji sannanlega góð rök sem mæla með þeim og náttúran fái allaf að njóta vafans. Umhverfis- og verndarsjónarmiðið verða í forgangi.

Forgangsmál eins og hlýnun jarðar og loftmengun munu sannanlega eiga sína málsvara innan ráðuneytisins. Málaflokkar tengdir Hafrannsóknarstofnun munu eiga sinn sess þar svo fátt eitt sé nefnt.

Fækkun ráðuneyta er því ekki á dagskrá þó svo að mögulega geti umhverfis- og auðlindaráðuneytið tekið einhverjum áherslubreytingum með tilfærslu málaflokka sem gætu þá færst til umhverfisráðuneytisins eða frá því, í þeim tilgangi að einfalda stjórnsýsluna.

Fjöldi umhverfis- og auðlindamálaflokka á því ekki að breytast.

 

 

Fullkominn misskilningur eða ósvífnar blekkingar?

 

Formaður fjárlaganefndar hefur nú komið sér í viðtöl víða til að skammast yfir því að stjórnarandstaðan skuli lýsa yfir áhyggjum vegna frétta um hugsanlega sölu á bönkunum. Jafnframt þykir honum fráleitt að funda um málið í efnahags- og viðskiptanefnd þar sem sala á hlut ríkisins í bönkunum heyri undir fjárlaganefnd. Nefndarformaðurinn segir fréttirnar um hugsanlega bankasölu alls ekki vera nýjar vegna þess að áform stjórnvalda um að selja hlut ríkisins í bönkunum hafi legið fyrir lengi.

Raunin er hins vegar sú að fréttirnar að undanförnu hafa ekki snúist um sölu á hlut ríkisins í bönkunum. Um það hefur enginn verið að tala nema formaður fjárlaganefndar. Fréttirnar snérust um að verið væri að skoða sölu á hlut vogunarsjóðanna í tveimur bönkum sem lið í nauðasamningum sem myndu takmarka mjög möguleika stjórnvalda á að koma til móts við skuldsett heimili. Ein af þeim útfærslum sem viðraðar hafa verið í þessu sambandi var sú að ríkið eða lífeyrissjóðir eignuðust hlut vogunarsjóðanna í bönkunum en fengju í staðinn hinn skuldsetta gjaldeyrisforða þjóðarinnar.

Það er vissulega rétt að það er langt síðan stjórnvöld lýstu áhuga sínum á að selja hlut ríkisins í bönkunum og notuðu það meira að segja sem forsendu aukinna útgjalda í fjárlögum. Við bentum á að þetta væri óraunhæft enda fáir kaupendur að bönkum þessa dagana og auk þess nauðsynlegt að taka á stöðu heimilanna áður en farið verður út í slíkt. Nú, nokkrum árum seinna, er ríkið auðvitað ekki enn búið að selja hlut sinn í bönkunum og það hefur enginn verið að tala um það nema formaður fjárlaganefndar. Þvert á móti umræðan hefur frekar verið um kaup innlendra aðila á bönkunum og útstreymi gjaldeyris.

Annað hvort er formaður fjárlaganefndar engan veginn með á nótunum í umræðu um áhrif vogunarsjóðanna og hefur algjörlega misskilið fréttir undanfarinna daga eða hann er viljandi að reyna að villa um fyrir fólki. Það er álitamál hvort er verra.

Baráttan um Ísland

Slagurinn um íslensk heimili og lífskjör þjóðarinnar er hafinn.  Samkvæmt fréttum eru vogunarsjóðirnir að koma gróða sínum í skjól í boði Framtakssjóðs lífeyrissjóðanna og Landsbankans. Lífeyrisjóða landsmanna og heimila þeirra.  Heimilin verða skilin eftir með stökkbreytt lán og atvinnulíf í lamasessi.  Hver hefði trúað því að ríkisstjórn á sínum síðustu dögum, sama stjórn og samdi gjaldþrot yfir þjóðina í Icesave málinu, sé að vinna að því að færa  skuldsettan gjaldeyrisvarasjóð þjóðarinnar til hrægammasjóðanna. Færa vogunarsjóðunum ofurhagnað sinn sem þeir fengu með að innheimta 100% af kröfum sem þeir keyptu á nokkur prósent.

Á síðustu fjórum árum hafa yfir 400 milljarðar verið færðir frá heimilum landsmanna og til fjármálafyrirtækjanna. Hagnaður bankanna á sömu árum hleypur á hundruðum milljarða. Það er bæði sanngirnis- og réttlætismál að hluti þeirra fjármuna verði – með einum eða öðrum hætti – færður til baka til fólksins í landinu – til heimilanna.

Það er stórkostlega varasamt að nota framtíðar lífeyri landsmanna til kaupa á bönkum sem að margra mati eru alltof hátt verðmetnir. Að færa heim erlendar eignir lífeyrissjóðanna til þess eins að færa vogunarsjóðunum dýrmætan gjaldeyri sem átti að standa undir framtíðar lífeyri landsmanna er glapræði. Þetta verður að stöðva.

Hvernig á þjóð að endurheimta krafta sína, byggja upp samfélagið að nýju þegar stjórnvöld  koma æ ofan í æ í bakið á landsmönnum?  Nú þegar fullnaðarsigri er náð í Icesave þá er reynt aftur að koma fjármunum landsmanna úr landi og skilja heimilin eftir með sín stökkbreyttu lán. Sama fólkið og var tilbúið að setja Icesaveklafann á þjóðina stendur nú fyrir samskonar verknaði.

Samspil lífeyrissjóðanna, Landsbankans og ríkisvaldsins í gegnum eignarhald á Landsbankanum með aðstoð Seðlabankans eru þessa daganna að setja sambærilegar byrðar og Icesave-klyfjarnar á heimili og landsmenn alla. Afleiðingin verður að tækifæri til nauðsynlegra afskrifta við nauðungarsamninga við vogunarsjóðina glatast. Hrægammasjóðirnir með aðstoð þessara aðila ná að koma ofurgróða sínum í skjól – afleiðingin mun leiða til lakari lífskjara almennings næstu áratugi. Og fyrir þessu stendur umboðslaus ríkisstjórn – korteri fyrir kosningar.  Við Framsóknarmenn munum berjast af alefli gegn þessu.  Almenningur í landinu verður að rísa upp og mótmæla – lokaorustan um hverjir eiga Ísland er hafin.

Hér má nálgast frétt um sama mál